Karlmenn ver­a fyrir kynfer­isofbeldi

Höfundur: Anna Bentína Hermansen

Menning okkar gerir þá kröfu til karlmanna að þeir eigi að vera með stjórn á öllum sviðum lífsins, þannig að þegar og ef karlmaður er beittur kynferðisofbeldi, þá á hann að sjálfsögðu að geta stoppað gerandann. Þessi krafa hefur þær afleiðingar að margir karlmenn kenna sér um að hafa ekki haft stjórn á ofbeldisaðilanum eins og alvöru karlmenn eiga alltaf að geta gert í hvaða aðstæðum sem er.

Önnur hávær krafa er að karlmenn eiga að vera til í kynlíf hvar sem er, hvenær sem er, með nánast hverjum sem er. Annað er merki um skerta karlmennsku og getuleysi. Þessi mýta um kynverund karla er rótgróin og lífsseig. Femínistar og kynjafræðingar hafa í gegnum tíðina gagnrýnt þær staðalmyndir sem við setjum um karlmennsku og kvenleika undir þeim formerkjum að þessar flokkuðu staðalmyndir skaði bæði kynin. Samkvæmt kenningum kynjafræðinnar eru karlmennska og kvenleiki hugmyndir, frekar en eitthvað óumbreytanlegt eðli sem kynin fæðast til að lifa eftir vegna þess að þau séu í „eðli“ sínu ólík. Mýtur um „eðli“ kynjanna; um karlmennsku og kvenleika finnast í ýmsum myndum í samfélaginu. Talað er um þessa hluti eins og fastar og óbreytanlegar stærðir þar sem takmarkið er að virða þetta „ólíka eðli“ hvors kynsins fyrir sig.

Patricia Easteal lögfræðingur og Louise McOrmond-Plummer félagsfræðingur segja í bók sinni Real Rape-Real Pain (2008) að margir karlmenn hafi þá skoðun að sönn karlmennska felist í hæfni þeirra til að „skora“ hjá sem flestum. Alvöru karlmenn tæla til kynmaka þar sem neitun er aðeins tækifæri til að vinna óunnið vígi. Ekki er ætlast til að kynferðisleg löngun sé gagnkvæm, aðeins að karlmaðurinn fái það sem hann vill. Svo ég noti þeirra orð:

„Stinnur limur og kynferðislegar athafnir eru almennt taldar lýsa stoltu augnabliki karlmanns og staðfestingu á karlmennsku hans. Hann er „sigurvegarinn“, stjórnandinn og sá sem veitir unaðinn. Hann er sá sem hefur valdið og í kynferðislegum athöfnum fellur hann algjörlega saman við hugmyndina um hinn „sanna karlmann“.

Hvernig snúa þessi viðhorf að karlmanni sem er þvingaður til kynlífs, sýnir jafnvel líkamlega örvun í formi stinningar þrátt fyrir að vera þvingaður? Og er jafnvel nauðgað af konu?

Kynferðisofbeldi gagnvart körlum er vanskráð eins og kynferðisofbeldi almennt er. Sú tölfræði og þær tíðnikannanir sem eru til gefa hins vegar einhverja hugmynd um umfang kynferðisofbeldis. Fyrsta tíðnikönnun hérlendis á umfangi kynferðisofbeldis á börnum var unnin af Hrefnu Ólafsdóttur félagsráðgjafa á árunum 1999-2003. Var 1500 manna slembiúrtaki fólks á aldrinum 18-60 ára úr þjóðskrá sendur spurningarlisti í pósti og svaraði helmingur þeirra eða 746 manns, sem þykir góð þátttaka í könnun um mál af þessu tagi. Í rannsókn Hrefnu kemur fram að 60% þolenda sögðu ekki frá kynferðisofbeldinu þegar það átti sér stað. Fram kemur að rúmlega fimmta hver stúlka og tæplega tíundi hver drengur höfðu verið beitt kynferðisofbeldi fyrir 18 ára aldur. 17% svarenda höfðu verið misnotuð, 23% kvenna og 8% karla. Hér er ekki gert ráð fyrir þeim einstaklingum sem upplifa kynferðisofbeldi eftir 18 ára aldur.

Samkvæmt tölfræði Stígamóta eru um 11% þeirra sem leita til samtakanna karlmenn. Eins og tíðnikönnun Hrefnu lýsir segja um 60% ekki frá ofbeldinu þegar það á sér stað. Samkvæmt tölum Stígamóta leitar fólk sér oft aðstoðar árum og jafnvel áratugum eftir að brotið var framið á þeim. Helsta ástæðan fyrir því að fólk leitar sér ekki hjálpar er sú skömm, sektarkennd og sjálfsásakanir sem fylgja brotaþolum kynferðisofbeldis sem er viðhaldið af þeim mýtum sem samfélagið heldur reglulega á lofti um þessi mál.

Helstu mýtur varðandi karlmenn:

 1. Drengir og karlmenn geta ekki orðið fyrir kynferðisofbeldi: RANGT: Þessi mýta þrífst á þeim hugmyndum sem samfélagið heldur á lofti varðandi karlmennsku. Karlmenn eiga ekki að vera berskjaldaðir þolendur slíkra verka. Veruleikinn er hins vegar sá að karlmenn eru fjölbreyttur hópur ólíkra einstaklinga. Oft verða þeir fyrir mun meira líkamlegu ofbeldi við nauðgun en konur. Kynferðisofbeldi er ávallt misnotkun valds sem er sett í kynferðislegan farveg. Gerandinn hefur ávallt einhverja yfirburði hvort sem það er líkamlegur styrkur, tengsl, mútur eða hótanir sem hann beitir.
 2. Samkynhneigðir karlar eru helstu gerendur kynferðisofbeldis á drengjum: RANGT, barnahneigð hefur ekkert með kynhneigð að gera, ekki frekar en þeir sem misnota stúlkur séu að tjá gagnkynhneigð viðhorf sín. Vissulega sýna rannsóknir að flestir gerendur eru karlmenn, en konur geta líka verið gerendur þótt það sé minna um það og síður samfélagslega viðurkennt.
 3. Ef karlmaður upplifir kynferðislega örvun eða fullnægingu á meðan á kynferðisofbeldinu stendur, þá hlýtur hann að vera þátttakandi og njóta athafnarinnar. RANGT: Karlmenn geta (konur líka) brugðist líkamlega við örvun, jafnvel þó að þeir séu í ofbeldisfullum aðstæðum. Þeir meðferðaraðilar sem vinna með gerendum segja að ein af þeim leiðum sem ofbeldisaðilinn fer, sé að gera brotaþolann ábyrgan með því að vísa í örvun eða stinningu brotaþolans. Margir upplifa við þetta skömm og sektarkennd sem margfaldast ef að brotaþolinn hefur upplifað einhvers konar örvun. Líkamleg viðbrögð eru eðlilegur fylgifiskur líkamlegs áreitis en hefur ekkert með það að gera hvort brotaþolinn hafi notið ofbeldisins.
 4. Karlmenn verða síður fyrir áfalli eftir kynferðisofbeldi: RANGT, Langtímarannsóknir sýna að kynferðisofbeldi hefur gríðarlega neikvæð áhrif á þann sem fyrir því verður óháð kyni. Karlmenn geta orðið fyrir miklum skaða sérstaklega í ljósi þess að samfélagið virðist neita að viðurkenna að þeir geti orðið fyrir kynferðisofbeldi. Umfjöllun íslenskra fjölmiðla nýlega um móður sem „sefur“ hjá unglingsdreng sínum, endurspegla klárlega afneitun samfélagins.
 5. Drengir sem eru misnotaðir af karlmanni verða samkynhneigðir: RANGT, það er mjög ólíklegt að einhver geti gert manneskju samkynhneigða eða gagnkynhneigða. Kynhneigð er mjög flókið fyrirbæri og þótt brotaþolinn hafi upplifað örvun með aðila af kyni sem hann hneigist síður að, þá hefur það ekkert með kynhneigð að gera. Slík örvun getur hins vegar valdið brotaþola hugarangri og hann farið að efast um kynhneigð sína. Sá sem beitir hann ofbeldinu hneigist hins vegar ekki að kyni hans, heldur er barnahneigð merki um vangetu til þess að þróa og viðhalda heilbrigðum tengslum við fullorðna manneskju.
 6. Vampíru sjúkdómurinn: þeir sem eru kynferðislega misnotaðir, munu misnota aðra. RANGT: Þessi mýta er afar hættuleg þar sem hún getur brennimerkt barnið um að líkur séu á því að það muni verða gerandi. Mýtan hefur einnig leitt til þess að drengir eru frekar meðhöndlaðir sem mögulegir gerendur heldur en brotaþolar sem þurfa hjálp. Á meðal geranda eru vissulega einstaklingar sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi. Samkvæmt rannsóknum eru konur aðallega það kyn sem verður oftast fyrir kynferðisofbeldi, hins vegar eru þær í fæstum tilfellum gerendur. Samkvæmt þessu ættu þær að vera meirihluti geranda.
 7. Ef gerandinn er kona, ætti drengurinn eða karlmaðurinn að álita sjálfan sig heppin að hafa orðið fyrir atburðinum. RANGT: Raunveruleikinn er sá að þvingað kynlíf, hvort sem það er framið af móður, frænku, eldri systur, barnapíu eða annarri konu hefur slæmar afleiðingar fyrir brotaþolann. Að verða misnotaður sem kynferðislegt viðfang annarrar manneskju til að fróa eigin fýsnum er aldrei afsakanlegt.

Afar mikilvægt er að samfélagið endurskoði þær hugmyndir sem það hefur um kynferðisbrotamál. Þau eru hlaðin mjög skaðlegum mýtum sem standast sjaldan raunverulega skoðun. Líklegt er að karlar leiti sér síður hjálpar við kynferðislegu ofbeldi en konur, það er enn ólíklegra að þeir geri það ef þessum mýtum er haldið á lofti. KARLMÖNNUM ER NAUÐGAÐ. Það er staðreynd sem við þurfum að horfast í augu við.

Sjá frekar

SvŠ­i

 • 562 6868
 • 800 6868

Netspjall

 • English
 • Espanol
 • Thailand
 • Polski
 • Russian

StÝgamˇt

Laugavegi 170 | 105 ReykjavÝk
S. 562 6868 / 800 6868
stigamot@stigamot.is

Bankan˙mer:á101-15-630999
Kt.: 620190-1449

OpnunartÝmar
Mßnudaga 9-18
Ůri­judaga 9-18
Mi­vikudaga 13-18
Fimmtudaga 9-18
F÷studaga 9-16