äAflei­ingar kynfer­isofbeldis ß brota■olaô

Höfundur: Anna Bentína Hermansen

Að upplifa kynferðisofbeldi er eins og að standa á barmi hengiflugs þar sem ólgandi sjórinn iðar fyrir neðan.  Þú ert föst í augnabliki þar sem allt hverfur á meðan fortíðin splundrast og steypist að landi eins og fljóðbylgja. Brimið rífur í sig jarðveginn og eyðir öllu sem á vegi þess verður. Þessi myndlíking er þrátt fyrir stór orð afar takmörkuð, því kynferðisofbeldið sem einstaklingurinn varð fyrir tærir grundvöll hans og ræðst á hann úr öllum áttum. Flóðbylgja kemur aðeins úr einni átt og þú hefur möguleika á að flýja. Undan afleiðingum kynferðisofbeldis flýr enginn. Atburðurinn er óafturkallanlegur.   Það skiptir ekki máli hversu oft eða hversu mikið ofbeldi þú varst fyrir. Afleiðingarnar eru altækar.

Við erum á leið í fjallgöngu, munum staðnæmast við hengiflug og sjá ólgandi sjóinn fyrir neðan. Það er alltaf erfitt að ganga torfærur en því lengra sem við förum upp á við, því betri yfirsýn fáum við. Mundu að þú gekkst í gegnum nánast óbærilegan hlut og lifðir hann af. Það þýðir að þú býrð yfir ótrúlegum styrk og hafðu það hugfast allan tímann. Allar tilfinningar þínar og allar þessar afleiðingar eru eðlileg viðbrögð við óeðlilegum aðstæðum.

Við erum líka í góðum skóm, með göngustafi og við förum þetta saman. Nú göngum við að fyrstu vörðunni sem stendur fyrir andlegar afleiðingar. Við þurfum að ganga að tveimur svoleiðis vörðum, þannig að það munu tveir pistlar fjalla um þetta málefni.  Á þessari vegferð okkar munum við láta steina í vörðurnar í þeim tilgangi að skila tilfinningunni. Sleppa henni lausri og viðurkenna að þessi tilfinning og líðan er ekki karaktereinkenni okkar heldur sjálfsbjargarviðleitni til að lifa ofbeldið af.

Áfallið sem kynferðisofbeldi hefur í för með er svo djúpstætt að margir einstaklingar sem fyrir því verða þróa með sér áfallastreituröskun (e. Posttraumatic Stress Disorder eða PTSD) sem er þekkt læknisfræðilegt fyrirbæri.

Áfallastreituröskun er kvíðaröskun sem hlotist getur af alvarlegu áfalli sem fólk verður fyrir, þar sem lífi eða velferð þess eða annarra, er ógnað. Á meðan á áfallinu stendur upplifir fólk mikla hræðslu, hjálparleysi og hrylling. Í kjölfar áfallsins verða einhverjar af eftirfarandi breytingum á atferli og tilfinningalífi fólks og þurfa einkennin að vera til staðar í a.m.k mánuð til að greining sé gerð: Fólk leitast við að forðast allt sem minnir á áfallið svo sem hugsanir og tilfinningar tengdar því, sömu sögu er að segja um tiltekna staði eða athafnir. Það endurupplifir oft atburðinn með einum eða öðrum hætti og fær áleitnar endurminningar um hann.  Með tímanum verður fólk áhugalausara og daprara en það á að sér og á almennt erfitt með að finna fyrir jákvæðum tilfinningum. Það upplifir sig oft einangrað frá öðrum og á erfitt með að sjá framtíð sína fyrir sér. Slík einkenni geta orðið þrálát og jafnvel varað í áratugi eftir að áfallið átti sér stað.

Í rannsókn sem ég gerði á langtímaafleiðingum kynferðisofbeldis höfðu fjórir viðmælendur mínir af átján verið greindir með áfallastreituröskun af sérfræðingum. Allar höfðu upplifað einkenni sem benda til áfallastreitueinkenna en aldrei leitað eftir greiningu. Sameiginlegt viðmælendum mínum var að þeim reyndist öllum afleiðingarnar eftir áfallið erfiðastar, jafnvel erfiðari en áfallið sjálft. Upplifun þeirra leiddi til alvarlegra einkenna sem hafði mikil áhrif á þeirra daglega líf og skerti lífsgæði þeirra til muna.

Rannsóknir sýna að langtímaafleiðingar kynferðisofbeldis geta verið svo miklar að erfitt er að setja fingur á hvaða áhrif kynferðisofbeldið sem slíkt hafi haft á brotaþolann. Það er vegna þess að afleiðingarnar gegnsýra allt; sjálfsmyndina, náin sambönd, kynverundina, foreldahlutverkið, vinnuna og jafnvel geðheilsu manneskjunnar.

Tilfinningar vanmáttar og hjálparleysis eru alsráðandi þegar kynferðisofbeldi hefur átt sér stað. Þeir fjötrar sem brotaþolar upplifa eftir atburðinn framkalla oft meiri eyðingu á sjálfsmynd þeirra. Oft eiga þeir erfitt með að greina á milli atburðarins og persónu sinnar. Í stað þess að líta á atburðinn sem slæman fer brotaþoli oft að upplifa sig slæman.

Ég talaði við eina tvítuga stúlku sem ég kalla Stellu, sem segir um þetta:

„Sjálfsálit mitt hrundi alveg, ég var vonlaus og bara ógeðsleg. Mér leið eins og enginn gæti elskað mig. Ég trúði því í alvöru sko, var með það á hreinu að það væri mér að kenna að ég lenti í þessu. Ég hafði gert eitthvað hræðilegt, það hlaut bara að vera, bad Karma eða eitthvað svoleiðis skilurðu (...) Ég var bara ógeðsleg manneskja (...) ég var sjö ára“.

Stella var sjö ára þegar hún varð fyrir kynferðisofbeldi af hálfu frænda síns. Frændinn var dáður af fjölskyldunni og í ábyrgðarstarfi í samfélaginu. Upplifun Stellu var að það gæti ekki annað verið en að frændinn missti stjórn á sér nálægt henni. Hún hlyti að gera eitthvað sem framkallaði verknað hans.

Stella var ekki ein um þessa upplifun því það var fernt sem allir viðmælendur mínir upplifðu og fundu stöðugt fyrir: Þetta voru: skömm, sektarkennd, sjálfsásakanir og léleg sjálfsmynd. Allir þættirnir spila saman og ekki hægt að slíta einn frá öðrum en í sameiningu virðast þeir leiða til þess að þolendur trúa því að kynferðisofbeldið sé þeim að kenna.

Ýmsar ástæður geta legið þar að baki. Ein er sú að þeim hafi beinlínis verið sagt að svo væri eða þeim hafi verið refsað þegar upp um ofbeldið komst. Þolandinn hefur jafnvel verið ásakaður um lygar og algengt er að nærumhverfi hans loki á hann þegar hann segir frá ofbeldinu.

Einn viðmælandi minn, kona á sextugsaldri sem ég ætla að kalla Evu, talaði um að hún hafi átt ofbeldið skilið. Afi hennar beitti hana kynferðislegu ofbeldi þegar hún var barn en þar sem hann gaf henni alltaf peninga að launum, fannst Evu einsog hún hefði samþykkt verknaðinn:

„Ég upplifði að ég bæri ábyrgð á því sem afi gerði. Hann [afinn] kunni þetta svo ofboðslega vel, hann var búin að gera þetta alla ævi sko. Hann gaf mér alltaf pening.“

Þar sem Eva þáði peninginn taldi hún að hún hefði gefið samþykki sitt. Hún sagði ekki frá ofbeldinu fyrr en löngu síðar, þegar afinn var dáinn. Þá kom í ljós að hann hafði misnotað yfir 20 börn úr fjölskyldunni: hann hafði stundað þetta lengi og þrjár kynslóðir höfðu orðið fyrir ofbeldi hans. Öll þögðu börnin af ótta við að opinbera þá skömm að hann hefði gert þeim þetta og að þau ekki gert neitt til að berjast á móti.

Önnur kona komin á sjötugsaldur, sem ég kalla Grétu, talaði um að faðir hennar hefði verið mikils metin þjóðfélagsþegn sem hefði breyst í óargadýr í skjóli nætur. Þessi mikils metni maður sem allir báru virðingu fyrir hlaut að verða svona vegna þess að hún gerði eitthvað rangt. Þegar fram liðu stundir komu fram ásakanir á hendur honum frá öðrum einstaklingum í fjölskyldunni sem sögðu hann hafa beitt sig kynferðislegu ofbeldi. Gréta varði föður sinn með kjafti og klóm þrátt fyrir að hafa allt aðra en góða reynslu af honum. Svo ég noti orð Grétu:

„Ég þekki það sjálf hvernig það er að verja gerandann, auðvitað þótti mér vænt um pabba, hann var nú einu sinni pabbi minn. En málið var líka, ég var sko að verja leyndarmál, leyndarmál sem var svo erfitt að horfast í augu við. Ég var í raun að verja sjálfa mig. Ég gat ekki tekist á við þetta.“

Gréta sagði ekki frá ofbeldinu fyrr en nýlega og í kjölfarið lokaði fjölskylda hennar á hana. Þrátt fyrir að líklegt sé að faðirinn hafi beitt fleiri fjölskyldumeðlimi kynferðisofbeldi þá var ábyrgðinni skellt á Grétu. Eins og hún segir sjálf þá gat hún ekki tekist á við þetta leyndarmál sem hún gekk með í rúm sextíu ár. Gréta skellti því skuldinni á sjálfa sig í stað þess að ásaka pabba sinn sem hún varð að treysta á. Þá fannst henni skárra að leita að sök hjá sjálfri sér en hjá þeim sem átti að vernda hana og styðja. Heimurinn yrði kannski þolanlegri fyrir vikið. Því ef sökin er einangruð við þolandann raskast veruleiki annarra ekki eins mikið.

Allar konurnar sem ég talaði við töluðu um tilfinningarótið sem tengdist því að þær bæru sjálfar ábyrgð á því sem gerðist. Þrátt fyrir einstaklingsmismun var það áberandi hversu lík upplifun kvennanna og viðbrögð þeirra voru. Allar leituðu skýringa í eigin hegðun og álitu að ef þær hefðu gert eitthvað öðruvísi (hegðað sér öðruvísi) hefðu þær ekki orðið fyrir ofbeldinu. Samkvæmt samantekt Stígamóta um afleiðingar kynferðisofbeldis kemur fram að þessar ráðandi tilfinningar, þ.e. sekt, skömm, sjálfsásökun og léleg sjálfsmynd, eru ekki aðeins ráðandi á meðan ofbeldið stendur yfir heldur fylgja þær konum fram á fullorðinsár.

Þessar tilfinningar verða hluti af sjálfsmynd þeirra sem hefur áhrif á tengslin við annað fólk og allt líf þeirra. Í raun og veru virðast allar þessar tilfinningar fléttast saman og smjúga inn í alla tilveru kvennanna og sjaldnast gera þær sér grein fyrir hinum öfluga eyðileggingarmætti þeirra.

Michael Lewis sálfræðingur gerði árið 1992 rannsókn á konum sem höfðu orðið fyrir kynferðisofbeldi. Rannsókn sína kallar hann Shame: The Exposed Self þar sem honum fannst skammartilfinningin vera mest ráðandi og afdrífaríkust. Lewis segir að mikilvægt sérkenni á fyrirbærinu skömm sé löngunin að fara í felur, hverfa eða jafnvel deyja. Í rannsókn hans kemur fram að þessi löngun er sá þáttur sem er hvað mest yfirþyrmandi í reynslu þess sem upplifir skömm. Lewis gerir greinarmun á skömm og sektarkennd. Á meðan skömm er algjör lokun sjálfsins þá er sektarkennd að hluta til byggð á sjálfinu en líka á ytri þáttum.

Sektarkennd er afurð þess þegar einstaklingur metur hegðun sína ranga en fókusar á hvað hann hefði getað gert öðruvísi. Sektarkennd er ekki eins áköf tilfinning og skömm og ekki eins skaðleg því sektarkennd fylgir fókus á verknaðinn fremur en á sjálfsmyndina í heild. Þegar ekki er hægt að leiðrétta verknaðinn, umbreytist sektarkenndin í skömm. Skömm þaggar vegna þess að hún lokar öllu sjálfi manneskjunnar.

Þessi skilgreining Lewis gæti skýrt hvers vegna afleiðingar kynferðisofbeldis hafa slíkan eyðileggingarmátt og hertaka oft til langframa alla tilveru brotaþolans. Önnur skýring gæti falist í því að margir þolendur uppfylla ekki þær opinberu kröfur um hvernig bregðast skuli við kynferðisofbeldi. Sú upplifun að hafa brugðist „rangt“ við elur af sér sjálfsásökun. Að auki virðast mýtur um kynferðisofbeldi ennþá lifa góðu lífi. Slíkar mýtur beinast að því að koma ábyrgðinni yfir á þolendur sem hafa með háttarlagi sínu, klæðaburði, áfengisneyslu eða jafnvel lygum komið sér í varhugaverðar aðstæður.

Algengasta sjálfsmyndin sem viðmælendur mínir lýstu er sú upplifun að þær séu einskis viðri, þær dugi ekki til neins og þær treysti engum. Léleg sjálfsmynd, sjálfsfyrirlitning, sektarkennd, skömm og sjálfsásakanir eru ríkjandi tilfinningar.

Nú leggjum við stein í vörðuna, skilum skömminni, sektarkenndinni og öllum þeim sjálfsásökunum sem við höfum verið að burðast með í bakpokanum og hefur litað allt líf okkar. Þú hefur borið þessar tilfinningar vegna brots sem var framið á þér en ekki af þér. Nú er nóg komið, taktu þá ákvörðun að láta hér staðar numið. Við erum komnar að hengifluginu, sjórinn ólgar fyrir neðan okkur.

Hvað eigum við að gera? Tökum af okkur bakpokann og hendum því sem við bárum fyrir ofbeldismanninn. Leyfum honum að bera það sjálfan. Höldum svo ferðinni áfram, við þurfum ekki að henda okkur af hengifluginu, snúum við og göngum að næstu vörðu sem ber merki líkamlegra afleiðinga. Þangað til skulum við fóðra líkamann og líta yfir farin veg, fá okkur nestið og meltum það rækilega.

 

SvŠ­i

  • 562 6868
  • 800 6868

Netspjall

  • English
  • Espanol
  • Thailand
  • Polski
  • Russian

StÝgamˇt

Laugavegi 170 | 105 ReykjavÝk
S. 562 6868 / 800 6868
stigamot@stigamot.is

Bankan˙mer:á101-15-630999
Kt.: 620190-1449

OpnunartÝmar
Mßnudaga - f÷studaga 9 - 18